Þegar ástarsöngva syng ég...

gcFór á Rokksafnið í Reykjanesbæ í vikunni.  Alltaf gaman að koma í það glæsilega safn.  Og ekki spillir fyrir að þar er nú ný sýning tileinkuð goðsögninni Björgvini Halldórssyni.  Stórglæsileg og stórskemmtileg í alla staði auðvitað. 

Meðal þess sem safngestir geta sér til ánægju gert er að endurmixa megahittið Ég syng fyrir þig frá 1978, á veglegu hljóðborði í salarkynnum safnsins.  Vinur minn og ferðafélagi benti mér á að þetta lag Björgvins, eins og mörg önnur, er tökulag, og ku enginn annar en Glen Campbell hafa verið upprunalegur flytjandi þess.

Nú, ekki er Glen minni goðsögn en Bó, og í raun alveg stórmerkilegur listamaður.  Byrjaði feril sinn á unga aldri sem session maður og var fljótt kominn í fremstu röð þar enda frábær gítarleikari.

Hann lék um tíma með hinu fræga Wrecking Crew gengi færustu session manna í L.A. á sjöunda áratugnum jafnframt því sem hann lék með Beach Boys á tónleikum og tók upp eigin tónlist, þ.á.m. hina stórkostlegu tónsmíð Brian Wilson og Russ Titelman, Guess I'm Dumb (1965).

Síðar hóf hann samstarf með lagahöfundinum frábæra Jimmy Webb og sló í gegn með lögum hans eins og Witchita Lineman, By The Time I Get To Phoenix og Galveston - séu örfá nefnd.

Hátindi ferilsins náði Glen líklega um miðjan áttunda áratuginn er ofursmellir á borð við Rhinestone Cowboy og Southern Nights (eftir Allen Toussaint!) tröllriðu öldum ljósvakans vestra og víðar.

Er komið var fram á níunda áratuginn var þó farið að halla aðeins undan fæti hjá okkar manni.  Vandræði í einkalífinu og erfiðleikar vegna áfengisneyslu bættu svo ekki úr skák.  Frægur var brandarinn sem Eddie Murphy sagði á Grammy verðlaununum sirka '85, þar sem viðstaddar voru allar helstu stjörnur þess tíma: Ef það yrði varpað sprengju á þetta hús yrði Glen Campbell skyndilega orðin stærsta stjarna heims.  Og hvað þeir hlógu, Hall & Oates og allur sá pakki.

En á síðari árum er Glen Campbell nú farinn að gera ágætis tónlist aftur.  Ghost on the Canvas er nokkurra ára gamalt lag með honum sem mér finnst alveg asskoti gott bara....

En fyrir nokkrum árum greindist Glen Campbell með Alzheimer hrörnunarsjúkdóminn illvíga og ku hann víst vera kominn á lokastigið nú.  Í sumar kom svo út platan sem er hans síðasta, Adios að nafni.  Árið 2014 kom út átakanleg heimildarmynd I'll Be Me, sem fjallar um baráttu Campbell-fjölskyldunnar við sjúkdóminn fram að því.  Algert skylduáhorf.  Skiljanlega hefur Glen Campbell nú sungið sitt síðasta og hefur dregið sig í hlé fyrir fullt og allt.  Adios, gamli. 


Bloggfærslur 27. júlí 2017

Höfundur

Hannes A. Jónsson
Hannes A. Jónsson

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband