Hó-hó-hó-It's magic!

pi

Flestir sem voru að komast til vits og ára um og í kringum miðjan áttunda áratuginn muna efalaust vel eftir laginu sem vísað er í í fyrirsögninni. Lag sem átti upp á pallborðið um víða veröld hið Herrans ár 1974.

Færri muna þó e.t.v. eftir hljómsveitinni á bak við smellinn góða. Pilot. Stofnuð í Edinborg, Skotlandi sirka 1972/3 af þeim David Paton (Bassi/söngur) og Billy Lyall (Hljómborð), sem höfðu verið saman í Bay City Rollers löngu áður en sú sveit sló í gegn svo um munaði. Þeir Stuart Tosh (Trommur) og síðar Ian Bairnson (Gítar) slógust svo í hópinn og úr varð þetta líka fína band.

Að vísu gerði fyrsta smáskífan Just a Smile ekki miklar rósir til að byrja með, rétt eftir að samningur við EMI-útgáfuna var í höfn, en Magic, stuttu síðar, skaut Pilot hratt upp á stjörnuhimininn margumtalaða. Breiðskífan From the Album of the Same Name fylgdi svo í kjölfarið, svona rétt eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Upptökustjórinn Alan Parsons hafði áður hlotið sína eldskírn í Abbey Road hljóðverinu sem tæknimaður bæði Bítlana og Pink Floyd.

Svona fyrir utan Abbey Road og Alan Parsons voru áhrifin á Pilot augljós tónlistarlega séð; Bítlarnir og annað bítl. David Paton sérstaklega virtist gæddur svipaðri náðargáfu og sjálfur McCartney þegar kom að melódískum hljómagangi og aðlaðandi viðlögum. Vandamálið, þannig séð, var bara það að Badfinger og 10 CC voru á svipuðum slóðum á þessum tíma og alls ekkert verri ef út í það var farið.

Hvað um það. Sama teymi, Pilot og Parsons, réðst svo snarlega í gerð Second Flight hljómskífunnar – án nokkurs vafa þeirrar bestu er Pilot sendu frá sér. Smáskífan January náði síðan toppi Breska smáskífulistans í janúar 1975, en Call Me Round floppaði svo fremur illa í kjölfarið, og það þrátt fyrir að vera einn þeirra sterkasti (og Bítlalegasti) singull.

 

Upp úr því var ný útgáfa af Just a Smile sett á markað, án tilvonanandi árangurs þó. Vandamálið við Pilot var svolítið þannig að þeim virtist vanta átakanlega sterka ímynd til að koma sér á síður táningatímaritanna. Tónlistina höfðu þeir með sér en sjónrænt séð voru þeir ekki beint Bay City Rollers.

Morin Heights, næsta breiðskífa Pilot, kom út árið 1976. Upptökustjóri Queen, Roy Thomas Baker, var kominn um borð og ögn framsæknari og þyngri tónlist var í forgrunni. Samt sem áður var melódían við völd í lögum á borð við Canada og Penny in My Pocket. En hljómsveitir eins og Pilot voru ekki lengur móðins. Frá Kings Road ljót bárust org, pönkið var nú málið á meðan metnaðarfull dægurtónlistarverk á borð við þá er Morin Heights innihélt fæddust nokkurnveginn andvana.

Grafskriftin var á veggnum en margir streittust við. Þrátt fyrir að bæði Billy Lyall og Stuart Tosh yfirgæfu sökkvandi skip Pilot héldu Ian Bairnson og David Paton svona hálfvegin ótrauðir áfram.

Arista útgáfan var þeirra næsti - og síðasti - áfangastaður þar sem fjórða breiðskífa Pilot, Two‘s a Crowd, kom út árið 1977. Fáir veittu henni hinsvegar athygli og leikurinn var einfaldlega úti.

Meðlimir Pilot þurftu þó eigi að örvænta þar sem hljóðversvinna var næg fyrir gott fólk sem kunni vel til verka. David Paton og Ian Bairnson gengu báðir til liðs við sinn gamla samstarfsmann og upptökustjóra Alan Parsons og Prójectið hans. Að auki poppaði Paton upp hjá u.þ.b. öllum í bransanum; Paul McCartney, Kate Bush, Elton John, Rick Wakeman, Camel, Chris Rea, Fish, o.fl., o.fl. Pilot snéru svo aftur snemma á þessari öld og hafa gefið sjálfir út efni með hléum s.l. 15 ár eða svo – þá aðallega nýjar útgáfur af gömlu lögunum, auk þess að túra svona við og við. Hó-hó-hó-It‘s magic!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hannes A. Jónsson
Hannes A. Jónsson

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband